Hvar er hjálp að fá?

Raddmein – hljóðvist – kennsla

Einkenni raddmeina er að röddin gefur sig. Slíkt getur lýst sér í langvarandi hæsi, rámri eða óhreinni rödd, hástemmdri/ lágstemmdri rödd og/eða raddbrestum. Sjaldnast fylgir raddmeinum beinn sársauki. Hins vegar finnur fólk fyrir þreytu í talfærum þegar það talar og röddin endist illa. Ástæðan fyrir langflestum raddmeinum er misnotkun á rödd sem gengur fram af raddböndunum og þekjulögin sem liggja yst á þeim gefa sig. Þannig myndast raddbandahnútar. Yfirleitt er hægt að hjálpa fólki með æfingum því það þarf að losa um alla spennu sem myndast í þeim fjölmörgu vöðvum sem standa að raddmynduninni. Þegar beita þarf átaki við raddmyndun segir það sig sjálft að spenna þarf vöðva til þess. Þetta verður til þess að raddböndin geta ekki starfað eðlilega og einstakingurinn kemst í vítahring – meiri átak við raddmyndun – veilli rödd. Oftast er það fullorðið fólk sem lendir í raddvandamálum en hundsið ekki barnahæsi. Það er jafnerfitt fyrir börn að vera hás eins og fullorðna! Og á sama hátt er hægt að hjálpa þeim.

Leiti fólk sér hjálpar gengur ferlið þannig fyrir sig:

1) Leita til háls- nef og eyrnalæknis sem athugar raddböndin. Hér á landi er einn læknir sem hefur menntun til þess – Anna Björk Magnúsdóttir starfandi læknir á háls – nef – og eyrnadeild háskólasjúkrahússins í Fossvogi. Hins vegar sinna aðrir háls- nef og eyrnalæknar radmeinaskoðun sé leitað til þeirra. Sjaldnast þarf inngrip læknis því langoftast er búið að ganga fram af raddböndunum með misnotkun.

2) Næsta skref er að leita til talmeinafræðinga því þó læknisinngrip hafi átt sér stað er hætt við áframhaldandi vöðvaspennu í raddfæravöðum sem gæti leitt til þess að röddin gefi sig aftur. Til þess að einstaklingurinn þurfi ekki að greiða að fullu fyrir þá meðferð þarf læknir að skrifa tilvísun á Sjúkrastofnun Íslands ( Tryggingastofnun Íslands) þar sem farið er fram á raddþjálfun hjá talmeinafræðingi.

3) Sjúkrastofnun Íslands ( Tryggingastofnun Ríkisins) greiðir helming kostnaðar við þjálfun hafi hún samþykkt tilvísunina frá lækni.

4) Hægt er að sækja um greiðslu úr Sjúkrasjóðum hinna ýmsu atvinnustétta til að greiða svokallað stofugjald en það er það gjald sem talmeinafræpingum er ætlað að innheimta á móti greiðslu Sjúkrastofnunar Íslands.

5) Að öllu jafna þarf ekki marga tíma hjá talmeinafræðingi.

Gott er að hafa þetta í huga sem raddsjúklingur

  1. Hlífið rödinni sem mest
  2. Ræskið ykkur alls ekki. Hóstið heldur. Ræskingar fara illa með raddbönd.
  3. Hvíslið ekki nema með leikshúshvísli en þá er hvíslið á útönduninni.
  4. Gætið þess að tala alltaf á nægu lofti. Talið hægt og gerið oft hlé til að hvíla raddböndin.
  5. Öskrið ekki né kallið. Færið ykkur að þeim sem þið ætlið að tala við. Komið í veg fyrir eins og hægt er að börn með raddveilur öskri.
  6. Talið helst ekki í síma. Ef þið þurfið þess sjáið þá til þess að þið horfið beint fram og klemmið ekki að hálsi.
  7. Drekkið vatn en hafið það ekki sárkalt
  8. Blandan heitt vatn – hunang og sítróna hafa oft hjálpað.
  9. Notið magnarakerfi ef þið vinnið vinnu sem krefst þess að þið notið röddina fyrir áheyrendahóp. Röddin er viðkvæm fyrir álagi.

Hljóðvist

Til þess að röddin berist vel að eyrum áheyranda þarf hljóðvist að vera góð. Nokkrir þættir hafa áhrif á það hvernig röddin berst til eyrna áheyrenda.

a) Fjarlægð til áheyrenda.  Rödd lýtur lögmáli hljóðs að dofna með fjarlægð. Þó hefur lögun rýmis, ómtími þess og hljóðendurkastsfletir einnig mikið að segja.

b) Ómtími í rýminu. Ómtímalengd rýmis hefur mikið að gera með talskilning og hljóðstig í rýminu. Ef ómtími er of langur, blandast orðin saman hvert við annað, og verða illskiljanleg. Æskileg ómtímalengd í rýmum er misjöfn eftir stærð rýma, notkun og tækjabúnaði.

c) Bakgrunnshávaði. Eftir því sem bakgrunnshávaði er hærri, því hærra þurfum við að tala til að rödd okkar yfirgnæfi bakgrunnshávaðann. Aðferðir til lækkunar á bakgrunnshávaða eru mismunandi eftir upptökum hávaðans, sem eru jafnvel utan rýmisins sem um ræðir.

Nokkrar verkfræðistofur bjóða upp á hljóðráðgjöf og hljóðmælingar, en einnig sjá Vinnueftirlit Ríkisins um mælingar á hávaða og endurómun. Sjá “Varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum, nr.921/2006; 9.11.2006; 1 kafli, 4 grein og Byggingareglugerð Stjtíð B nr. 441/1998; 8 kafli, og ÍST45:2011 – Hljóðvist – Flokkun íbúðar- og atvinnuhúsnæðis.

Dregið úr hávaða.

Hávaði er skilgreindur sem óæskilegt hljóð sem veldur ónæði. Því miður virðist það vera svo að litið er á hávaða sem sjálfsagðan fylgifisk tæknivædds þjóðfélags. Slíkt er fjarri öllu sanni og sjálfsagt að draga úr honum eftir megni.

Hávaði frá húsnæði vegna hönnunar.

Nokkrar verkfræðistofur bjóða upp á hljóðvistarhönnun, ráðgjöf og hljóðmælingar.

Hávaði frá húsgögnum

Pinnastólar eru njög algengir en þeir valda miklum hávaða séu þeir dregnir eftir gólfi. Leysa má þennan vanda með því að setja tennisbolta undir fætur (sjá mynd í “Myndir”).

Stálfætur á borðum valda hávaða þegar stálfætur á stólum skella í þá. Draga má úr hávaðanum með því að setja hljóðeinangrandi efni á snertiflör t.d. efni eins og notað er til þess að einangra rör.

Hávaði frá leiktækjum/föngum

Á flestum leikskólum eru notaðir trékubbar eða klossar sem geta valdið miklum hávaða. Kubbarnir geta verið nokkuð stórir og gerðir úr viði (sjá mynd í “Myndir”). Hávaði sem myndaðist þegar slíkum kubb var skellt í gólfið mældist 98 dB mælt í höfuðhæð 3 ára barns. Minni kubbar eru mjög algengir en þeir gefa frá sér talsverðan hávaða. Setja þarf þykkar fjaðrandi mottur úr t.d. svampgummíi eigi að draga úr hávaða frá þessum kubbum. ÞAð er ekki nóg að hafa teppi eða mottur. Aðalatriðið er þó að kenna börnum að leika sér að kubbunum án þess að tilgangurinn sé að reisa þá upp í turna og velta svo öllu niður til þess að skapa sem mestan hávaða.

Hávaði frá hljómflutningstækjum

Hávaði á skemmtistöðum eins og t.d. dansstöðum og bíóum hefur iðulega mælst yfir löglegum mörkum. Slíkur hávaði getur valdið varanlegum heyrnarsköðum eins og t.d. þrálátu eyrnarsuði eða sóni (tinnitus). Slíkt er ólæknandi og fer vaxandi hjá ungu fólki. Fylgjast þarf líka með i pod sem hægt er að spenna yfir þau mörk sem talin eru vera hættuleg heyrn.

Hávaði frá mannskepnunni sjálfri.

Hávaði fylgir alltaf manninum; frá hreyfingum, skrjáfi í fötum, frá tali og tónum. Því segir það sig sjálft að eftir því sem fleiri eru hafðir saman í rými þeim mun meiri verður hávaðinn. Meðalgildishávaði á leikskólum hefur mælst samkvæmt mælingum Vinnueftirlitsins (Sjá fyrirlestur frá vinnueftirliti) yfir þeim mörkum sem talin eru geta skaðað heyrn. Gæta þarf að fjölda barna í rými.

Hægt er að kaupa eyra sem lýsir rauðu þegar hávaði hefur náð ákveðinni hæð. Það verður að kenna börnum að virða eyrað og kappkosta að halda græna ljósinu en ekki að nota eyrað sem leiktæki til að láta rauða ljósið koma.

Kenna þarf börnum að sköpun hávaða er ómenning sem þarf að vinna bug á.

Share This