Það er röddin sem gefur orðunum meiningu

Mannsröddin hefur fyrst og fremst verið tengd ímynd söngs og hins talaða orðs. Á hinn bóginn er frumeðli hennar að láta í ljós tilfinningar. Hver þekkir ekki reiðiöskur, sársaukavein, hræðsluóp, gleðióp og það sem aðeins einkennir manneskjuna, hlátur og grát?

Hljóðmyndun í saxafóni

1. Við blásum í munnstykkið og þar er lítil plata sem byrjar að titra.
2. Hljóðöldur myndast.
3. Hljóðbylgjur berast neðar í saxa- fóninn þar sem takkarnir eru.
4. Við mótum mismunandi tóna með því að ýta á takkana á saxa- fóninum.
5. Hljóðbylgjur berast út um opið á saxafóninum.
6. Hljóðbylgjurnar berast inn í eyru.
7. Við tekur taugaboðaferli eftir heyrnar- tauginni upp í skynstöð heila.

Ferill mannsraddar

1. Útöndunarloft frá lungum skellur á raddböndunum og fær raddböndin til að titra.
2. Hljóðöldur myndast.
3. Hljóðöldur berast um hljómrýmin – bringu, barka, kok, munn- og nefhol, efri hluta höfuðkúpu.
4. Talfærin varir, tunga, kjálki, kinnar og mjúki gómur móta hljóðbylgjurnar í mismunandi hljóð.
5. Hljóðbylgjur berast út úr munninum.
6. Hljóðbylgjurnar berast inn í eyru.
7. Við tekur taugaboðaferli eftir heyrnartauginni upp í skynstöð heila.

Hvað veistu um rödd og hljóðvist?

  • Veistu að rödd er einungis hljóð sem lýtur lögmálum þess að dofna með fjarlægð og drukkna í hávaða?
  • Veistu að enginn getur dæmt um hvernig röddin manns sjálfs berst til annarra né hvernig öðrum hugnast hún?
  • Veistu að röddin er ótryggt atvinnutæki sem fólk leigir út?
  • Veistu að skemmd rödd missir hljóm og verður óáheyrileg. Þannig geta t.d. kennarar átt á hættu að nemendur hvorki heyri til þeirra né vilji lúta aga.
  • Veistu að fjarvera frá vinnu vegna raddörðugleika kostar þjóðfélagið dágóða fúlgu á hverju ári?
  • Veistu að góð hljóðvist er eitt af lykilatriðum þess að fólk haldi rödd og áheyrendur heyri það sem sagt er ?
  • Reynslan hefur sýnt að skemmda rödd má laga. Því sinna talmeinafræðingar

Tungustaða á mestu opnun á talhljóðinu /A/ til minnstu opnunar á talhljóðinu /Í/

Kjálkavöðvar verða að vera liðugir til að munnhol geti opnast og leyft talfærum að mynda þær hljóðöldur sem við svo túlkum sem talhljóð þegar þær hafa borist inn í skynstöð heilans.

Hvað getur haft áhrif á rödd og raddgæði?

 

Röng raddbeiting Setur of mikið álag á raddbönd.
Aldur Hefur breytingar í för með sér á yfirborði raddbanda.
Streita Grynnir öndun og spennir upp vöðva í raddkerfinu.
Tilfinningar Valda spennu í raddmyndunarkerfi.
Álag Veldur þreytu í raddmyndunarvöðvum.
Lyf Geta haft áhrif á eðlilega slímmyndun á raddböndum.
Þurrt loft Getur valdið þurrki á raddböndum.
Mengað loft Getur valdið skemmdum á slímþekjulagi raddbanda.
Ofnæmi Getur valdið ertingu í þekjulagi raddbanda.
Sjúkdómar  Geta valdið skemmdum í þekjulögum raddbanda.
Bakflæði Getur valdið ertingu í þekjulagi raddbanda.
Astmi Getur valdið ertingu í þekjulagi raddbanda.
Heyrnardeyfa Raddkerfið þanið til að geta heyrt til sjálfs sins.
Munnkækir Geta valdið þreytu í tungu, kinnum og kjálkum.

.

Raddkerfi

Raddkerfið samanstendur af:

  • lungum sem veita lofti undir raddbönd og fá þau til að titra.
  • raddböndum sem gefa frá sér hljóðöldur.
  • vöðvum sem stjórna hreyfingum barkakýlis og þar með mismunandi strekkingu raddbanda (þar með myndast mismunandi tónar).

Lungun

Mikilvægi öndunar fyrir raddmyndun:

Loft gegnir sama hlutverki fyrir raddbönd og bensín fyrir bílvél. Vitlaus inngjöf fer illa með bílvél og það má heyra það á vélarganginum. Ef of litlu lofti er skammtað milli raddbandanna í raddmyndun verður röddin kraftlítil þar sem raddböndin ná ekki að dragast nægilega vel saman og talhljóð skila sér jafnvel illa. Afleiðingin getur orðið illskiljanlegt mál.

Grunn öndun og djúp öndun

— 

Innöndun

Útöndun

Grunn öndun

Kviður leitar INN Kviður leitar ÚT

Djúp öndun

Kviður leitar ÚT Kviður leitar INN

 

Kviðöndun er í raun okkar eiginlega öndun eins og hjá öðrum spendýrum. Ungbörn eru öll með kviðöndun og ef við förum á fjóra fætur þá notum við ósjálfrátt kviðöndun. Á hinn bóginn, þegar maðurinn fór að ganga uppréttur á tveimur fótum, breyttist álag á líkamann og þar með var grunnri öndun boðið heim. Hún er þó ekki einhlít því sumir nota eðlislægt kviðöndun.

Raddheilsa

Með orðinu raddheilsa er vísað til heilbrigðisástands þess kerfis sem myndar og mótar rödd, þ.e.a.s. lungna, raddbanda og vöðva sem stjórna barka og barkakýli. Allt sem reynir of mikið á raddmyndunarkerfið getur ógnað raddheilsunni, ekki síst ef fyrir hendi er þekkingarleysi á raddmyndun, raddbeitingu og á því hvað getur ógnað rödd.

Gengið fram af raddheilsunni

Raddbönd sem búið er að misbeita í söng eða tali geta verið komin með þrota í þekjulög raddbandanna og jafnvel í raddbandavöðvana sjálfa þótt það sjáist ekki alltaf. Þessu fylgir ekki sársauki heldur raddveilur eins og langvarandi hæsi og þreyta við notkun, t.d. raddþreyta við upplestur, söng eða jafnvel samræður. Þegar þannig er komið þarf að losa um spennuna sem sest hefur að í stýrikerfi barkakýlis.

Hreyfifærni barkakýlis ógnað

Ef höfuðið er keyrt niður í bringu við tónmyndun næst ekki að strekkja á raddböndunum. Við það verður tónninn dimmur. Þetta má prófa með því að mynda stöðugan tón og keyra hökuna niður svo hún þrengi að kverk.  Á hinn bóginn verður tónninn bjartur þegar hakan er reygð upp á við vegna þess að þá strekkist á stýrivöðvum barkakýlis og raddböndin lengjast. Nái barkakýlið ekki að hreyfast eftir þörfum verður röddin eintóna. Slík rödd getur illa gefið til kynna tilfinningar auk þess sem hún er þreytandi til áheyrnar.

Bilar rödd?

Strangt til tekið þá bilar röddin ekki vegna þess að hún er hljóð og hljóð bila ekki. Það er ekki farið með bíl í viðgerð til að láta gera við hljóðið. Á hinn bóginn bendir hljóðið til þess að eitthvað sé að gangverki bílsins. „Biluð rödd” bendir til þess að eitthvað sé að í því kerfi sem myndar hana og mótar, t.d.:

  • Skammta lungun nægjanlegt loft upp til raddbanda?
  • Starfa raddmyndunarvöðvar rétt?
  • Er eitthvað að raddböndunum?
  • Ná talfærin að móta röddina í talhljóð eða rétta tóna í söng?

Mat á eigin rödd og raddhæfni

Blekkingavefur sem er auðvelt að flækja sig í vegna þess að fólk áttar sig ekki á að:

  • Raddmyndun fer fram án þess að einstaklingurinn verði var við líkamsstarfsemina sem býr þar að baki. Slíkt meðvitundarleysi getur haft í för með sér hættu á rangri raddbeitingu sem getur skaðað röddina.
  • Þar sem raddböndin eru tilfinningalaus getur röng raddmyndun haft í för með sér ofreynslu án sársauka.
  • Röddin glymur í höfðinu á þeim sem talar. Þar af leiðandi getur hann/hún hvorki gert sér grein fyrir hvernig hún hljómar í annarra eyrum, né áttað sig á því hversu vel hún berst.
  • Rödd sem er hás, rám eða gefur sig berst illa og skilar ekki alltaf öllum talhljóðum til áheyranda.
  • Skemmd rödd er óáheyrileg og getur farið í taugarnar á áheyrendum.
Share This