Lausnamiðuð ráðstefna haldin til að heiðra minningu Önnu Bjarkar Magnúsdóttur
(21.04.1961 – †21.03.2011) raddmeinafræðings af félögum hennar í “Nordic Voice Ergonomic Group”.

Ráðstefnan er lausnamiðuð og fjallar um hávaða og hljóðvist í námsumhverfi barna. Hávaði hefur mælst svo hár á leikskólum og íþróttasölum að samkvæmt vinnuverndarlögum ættu einstaklingar að ganga með heyrnarhlífar. Þar með er hávaðinn kominn langt yfir þau mörk sem fullorðnir telja vera forsendu þess að geta einbeitt sér eða heyrt talað mál skýrt. Að tala í slíkum hávaða setur raddheilsu kennara í alvarlega hættu. Erlendir og innlendir fyrirlesarar fjalla um málefnið. Ráðstefnan fer því bæði fram á íslensku og ensku. Ráðstefnan ætti að vekja áhuga bæði leikmanna og lærðra því að þarna koma við sögu atriði sem varða læknisfræði, sálarfræði, hljóðvistarfræði, byggingafræði, talmeinafræði og kennslufræði.

Fyrri hluti. 12. október. Fjallað verður um áhrif hávaða á heyrn, rödd og líðan í námsumhverfi barna út frá sem flestum hliðum, m.a. frá sjónarhorni læknisfræði, hljóðvistar og laga. Nám þarfnast aðstæðna sem tryggja að rödd geti borið talað orð að eyrum hlustenda, að hlustunarskilyrði séu fyrir hendi og að athygli og einbeiting geti haldist. Að heyra greinilega talað orð er forsenda fyrir vexti og þroska heilans og þar með undirstaða náms. Það er því nauðsynlegt að stemma stigu við hávaða í námsumhverfi barna.

Síðari hluti, 13. október. Seinni daginn munu norrænir, breskir og íslenskir sérfræðingar ræða hvað hægt er að gera til að draga úr hávaða í námsumhverfi barna og bæta hljóðvist. Fyrirlestrar þeirra og umræður eiga erindi við áhugafólk, námsmenn og fagfólk sem koma að menntun, heilsu, þroska og líðan barna sem og til þeirra sem bera ábyrgð á skólabyggingum.

Markmiðið með ráðstefnunni

Ráðstefnunni er ætlað það hlutverk að kortleggja hávaða í námsumhverfi barna og hvað hægt er að gera þar til bóta. Það er alkunna að hávaði hefur skaðleg áhrif á líkamlega og andlega líðan þeirra sem í honum dvelja. Þannig hafa rannsóknir sýnt að hávaði:

  • veldur raddskemmdum fullorðinna sem barna,
  • veldur heyrnarskemmdum,
  • orsakar tinnitus (eyrnasuð),
  • skapar streitu sem getur haft neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu,
  • truflar einbeitingu og athygli og getur þannig dregið úr námsárangri,
  • stendur í vegi fyrir að börn læri að lesa,
  • hefur áhrif á námsárangur,
  • hefur áhrif á þroska.

Kveikjan að ráðstefnunni

Ráðstefnan er haldin í minningu Önnu Bjarkar Magnúsdóttur sem var háls-, nef- og eyrnalæknir með raddmein sem sérgrein. Anna var meðlimur í hópi norrænna sérfræðinga (Nordic Voice Ergonomic Group) sem vinna að bættum skilyrðum fyrir rödd og heyrn og það er sá hópur sem stendur á bak við þessa ráðstefnu. Leitast verður við að gefa erlendum nemum og fyrrum samstarfsmönnum Önnu tækifæri til að fylgjast með þeim hluta ráðstefnunnar sem fer fram á ensku og verður hún því flutt vefrænt til erlendra háskóla. Auk þess verður ráðstefnan send í gegnum fjarskiptabúnað til háskólans á Akureyri þar sem leikskólakennurum og nemum háskólans verði gert kleift að fylgjast með henni.

Hvenær

Hvenær

  • 12. október 2012. Kl. 9.00 – 16.10
  • 13. október 2012. Kl. 9:25 – 14:00
Hvar verður ráðstefnan?

Hvar verður ráðstefnan?

Ráðstefnan verður í Hringsalnum í Háskólasjúkrahúsi Landspítalans (kort).
Kostnaður

Kostnaður

Þátttökugjald, 12.500 kr. fyrir báða daga ráðstefnunnar. (Nemar í háskólanámi borga 5.000 kr.)

– athugaðu að námssjóðir stéttarfélaga og vinnustaða eru líklegir til að styrkja þig til þátttöku.

Skráðu þig núna!

Gestamóttakan er fyrirtæki sem sér um skráningarnar á ráðstefnuna fyrir okkur.

Hlökkum til að sjá þig!