Höfundur að rödd.is

Dr. Valdís  Ingibjörg Jónsdóttir, menntaður grunnskólakennari, heyrnar- og talmeinafræðingur með mastersgráðu (M.Phil frá Strathclyde University; Glasgow 1996) og doktors- gráðu (PhD frá Tampere í Finnlandi, 2003) í rödd og raddumhirðu (voice ergonomics). Hún hefur unnið síðan 1974 við talkennslu bæði í skólum og á eigin stofu og frá 2003 sinnt raddþjálfun. Auk þess hefur hún sinnt ýmsum rannsóknum á röddum kennara þar sem niðurstöður hafa verið birtar hérlendis sem erlendis og verið með fyrirlestra um rödd. 

Mastersritgerð: “The effects of professional demands and environmental influences on teachers’ voices in North East Iceland”. Doktorsritgerð: “The voice as an occupational tool”. 

Röddin er hluti af því hver við erum

Tilgangur síðunnar er að auka þekkingu á rödd og að fólk geti leitað sér hjálpar við að kortleggja eigin rödd.

Talið er að um þriðjungur vinnuafls þjóðar framfleyti sér á því að leigja röddina út í atvinnuskyni. Raddveilur eins og langvarandi hæsi, ræma, raddbrestir, lítið raddþol, kökktilfinning í hálsi, raddþreyta við lestur, söng eða samræður hafa sýnt sig að vera algengar meðal þeirra sem nota röddina sem atvinnutæki. Ástæðan fyrir raddveilum hefur fram til þessa fyrst og fremst verið rakin til vanþekkingar á líffærafræði raddar, raddheilsu og raddvernd.

Fólk kann því ekki að varast hættur né átta sig á því að hér er um líkamsstarfsemi að ræða sem hægt er að ganga fram af og skemma. M.ö.o. hér er um heilsufarsspursmál að ræða. Reyndar er þetta skiljanlegt í ljósi þess að fram til  þessa hefur ekki verið hægt að fá neina heildstæða fræðslu um líffræði raddar né framburðar hvorki í skólum né á almennum markaði.

Fólk er því býsna fáfrótt um að í raun er það að leggja fram verðmætt atvinnutæki sem getur skaðast og áttar sig ekki almennt á því að rödd er tilkomin vegna flókinnar líkamsstarfsemi sem getur brugðist eins og öll önnur starfsemi líkamans, ekki síst ef gengið er fram af raddmyndunarkerfinu. Röddin bilar ekki frekar en hljóð bilar. Hins vegar bendir biluð rödd til þess að eitthvað séí því kerfi sem myndar hana.

Share This