Mikilvægt er að hafa í huga:

  1. Það er alls ekki víst að aðrir heyri eins vel til okkar og við höldum.
  2. Ekki nota röddina þegar bólga eða þroti er í hálsi.
  3. Vertu þess vel meðvitaður/meðvituð að vera aldrei með samanklemmdan munn þegar þagað er. Kjálkinn þarf að vera afslappaður.
  4. Talaðu alltaf með það slakan kjálka að tunga liggi milli tanna.
  5. Spenntu aldrei brjóstkassann þegar rödd er beitt í hávaða eða í stórum húsakynnum.
  6. Gættu þess að hafa alltaf bil á milli tanna í talmáli. Tennur eiga aldrei að snertast nema í framburði á talhljóðinu /s/.
  7. Ekki tala með samanbitna kjálka því það óskýrir framburð.
  8. Ekki spenna tungu út í tennur. Það getur valdið þreytu í tunguvöðvum og tungurótum þegar fólk spennir, ósjálfrátt eða viljandi, tunguna út í tennur. Slíkt getur stuðlað að raddveilum þar sem stífni í tungurótum getur heft hreyfingu málbeins og þar með komið í veg fyrir eðlilega hreyfingu raddbandanna.

Mikilvægi líkamsstöðu

Loftflæði þarf að berast óhindrað frá lungum upp á milli  raddbanda til að fá sterkan tón. Líkaminn upp frá nára verður þess vegna að vera sem réttastur í tali eða söng.

Klemma ekki að málbeini í kverk

Mikilvægi höfuðstöðu Passaðu upp á að höfuðið sé sem allra oftast sem næst í 90 gráða horni við kverk þegar verið er að tala eða syngja.

Hvorki má klemma að kverk né teygja fram álkuna í tónmyndun. Höfuð verður að sitja rétt á hálsi þegar talað er vegna þess að annars verður skakkt álag á allt raddmyndunarkerfið. Gott ráð til þess að finna hvort höfuð situr rétt á banakringlu (efsta hálslið) er að hrista höfuðið aðeins og stoppa svo. Á því augnabliki situr höfuðið rétt. Gott er að gera þetta fyrir framan spegil. Reigðu ekki höfuðið upp eða aftur þegar þú talar.

Grunn öndun í tali og söng eykur hættu á loftleysi

Ef þess er ekki gætt að endurnýja loftbirgðir og/eða einstaklingur talar á litlu sem engu lofti spennast raddmyndunarvöðvar upp. Afleiðingin verður bæði þreyta í raddfærum og talmyndunar- vöðvum, s.s. utanáliggjandi barkakýlisvöðvum, koki, tungu og kjálkavöðvum, en einnig líkamleg þreyta af því að líkaminn fær ekki nauðsynlegt súrefni.

Í tali liggur heilbrigð rödd aðallega í munnholi

Rödd sem liggur of neðarlega eða er hástemmd bendir til að komin sé vöðvafesta í þá vöðva sem stjórna raddkerfinu og ráða strekkingu raddbanda. Raddböndin verða fórnarlömb en ekki gerendur þegar röddin bregst þeim sem hafa misbeitt henni. Söngvarahnútar (ójöfnur á raddbandajöðrum) eru langoftast taldir stafa af misbeitingu á rödd. Komi raddbandahnútar á raddbönd verður rödddin hás, rám og endingalítil.

Misbeiting raddar

Ef röddinni er misbeitt þá er hætt við að gengið sé fram af þoli radd- og talmyndunarvöðva. Slíkt getur leitt til festumeina eða viðvarandi þreytu – sérstaklega í vöðvum sem festa barkakýlið og hringbrjóskið (brjóskhringur fyrir neðan barkakýli með könnubrjóskum sem endi raddbanda eru festir í) saman, svo og í tungurótum. Festumeinin geta valdið því að barkakýlið keyrist upp og festist í kverkinni. Geti raddböndin ekki hreyfst eins og þeim er eiginlegt verða afleiðingar raddþreyta í söng og/eða málnotkun og hætta á að raddveilur myndist, t.d. eintóna rödd, raddbrestir eða hæsi.

Öskur fer illa með raddbönd

Einstaklingar öskra af ýmsu tilefni eins og þegar tilfinningar bera þá ofurliði í hræðslu, reiði eða æsingi. Á hinn bóginn er það slæmur ósiður að öskra, bara til að öskra eins og sumum börnum hættir til að gera eða þegar öskrað er ótæpilega, t.d. á kappleikjum eða við líkamsæfingar. Að öskra í söng fer einnig illa með raddbönd.

Kringumstæður sem bjóða upp á misbeitingu raddar í tali eða söng:

  • Þegar höfuð situr ekki rétt á hálsi (hallar til hliðar, fram eða reigist aftur).
  • Röng líkamsstaða (t.d. bogra yfir einhverju).
  • Talað í tilfinningaróti eins og streitu, reiði eða með miklum sannfæringarkrafti.
  • Talað eða sungið í rangri raddhæð t.d. sungið í annarri tónhæð en manni er eðlislægt.
  • Talað eða sungið í of mikilli fjarlægð til hlustanda.
  • Talað eða sungið yfir stórum hóp.
  • Öskrað eða gólað t.d. á kappleikjum, íþróttum eða í erobik.
  • Talað eða sungið þar sem hljómburður er lélegur, eins og í of miklu bergmáli eða þegar hljóð berst illa um húsakynni.
  • Talað eða sungið í bakgrunnshávaða (stöðugur hávaði t.d. eins og frá tækjum).
  • Talað eða sungið í erilshávaða (hávaði sem lifandi verur mynda t.d. raddbeiting, athafnir).
  • Talað eða sungið í þurru, köldu eða menguðu andrúmslofti.

Svona raddbeiting gengur algjörlega fram af raddböndunum

 

Talið og syngjið í eðlislægri raddhæð vegna þess að:

Lengd raddbanda og sveiflufjöldi á sekúndu:

Karlar: 1,75-2,50 cm. Sveiflufjöldi 100-146 sveiflur á sekúndu.
Konur: 1,25-1,75 cm. Sveiflufjöldi 164-255 sveiflur á sekúndu.
Börn: <1,25 cm. Sveiflufjöldi 270-300 sveiflur á sekúndu.

Það getur því verið líffræðilega ómögulegt fyrir fullorðna að ná með góðu móti annarri tónhæð en þeim er eiginleg. Ef reynt er að strekkja meira á raddböndum en þau þola þá getur sú áreynsla skaðað þau. Það er t.d. ekki öllum kvennaröddum ætlað að geta sungið sópranrödd. Þess vegna getur verið varasamt fyrir konur sem karla að reyna að syngja í raddhæð barna.

Börn eru með mun styttri raddbönd og eru þar af leiðandi að öllum jafnaði með mun bjartari rödd sem líkja má við sópranrödd. Á sama hátt má segja að sjálfsagt dytti fáum konum í hug fara í karlakór og syngja þar bassa. Þær hafa einfaldlega ekki raddbönd í slíkt. Þess vegna getur verið varasamt fyrir fullorðna að ætla sér að syngja í sömu tónhæð og börn.

Óhollusta í innöndunarlofti

Að anda að sér óhollustu hvort sem er reykur, ryk eða efni sem hafa sest að í andrúmslofti (t.d. klór í sundlaugum, efni eins og ozon frá laserprenturum) geta skaðað þekjulög í öndunarvegi og þar með þekjulög raddbanda.

Ytri áhrif sem geta skaðað rödd

  • Mengað andrúmsloft
  • Reykingar
  • Áfengi
  • Lyf
  • Koffín
  • Fíkniefni
  • Bakflæði
  • Óholl efni í andrúmslofti og tóbaksreyk

Þegar við tölum getum við ekki andað með nefi á meðan og þurfum því að draga loft inn í gegnum munn. Þannig getur óþverri í innöndunarlofti sest á raddbönd. Að anda að sér óhollustu hvort sem er reykur, ryk eða efni sem hafa sest að í andrúmslofti (t.d. klór í sundlaugum, efni eins og ozon frá laserprenturum) geta skaðað þekjulög í öndunarvegi og þar með þekjulög raddbanda. Slíkt getur leitt til myndun raddveilna. Reykingaröddin er gott dæmi um slíkt. Þekjulög raddbandanna hafa þykknað og slímið sem á að sjá um að raddböndin haldist mjúk og teygjanleg hefur þykknað. Reykingaröddin er dimm (raddböndin orðin þykk og ná ekki að sveiflast hratt), hás (raddböndin ná ekki að lokast eðlilega), vantar hljóm og raddblæ (raddböndin ná ekki að teygjast og slakna eðlilega).

Share This