Vefur um rödd og raddheilsu

 

Útskýringar á forsíðumynd

Vatnsdrykkja hjálpar til við að halda raddböndum rökum sem er nauðsynlegt fyrir teygjufærni þeirra m.o.ö. að þau geti myndað tónrennsli.

Ræskingar fara illa með þekjulög raddbandanna. Þetta er svipað eins og með fána sem berst um í vindi – jaðarinn trosnar á með tíð og tíma.  

Þekking á eigin raddgetu hjálpar einstaklingi að misbjóða ekki röddinni.

Þekkingarleysi. Þegar fólk hefur ekki þekkingu á undirstöðum raddmyndunar og þar með ekki þekkingu á hlutverki radd- og talfæra, er hætt við misbeitingu þessara kerfa.

Rétt höfuðstelling sér til þess að raddbönd séu í réttri stöðu. Röng höfuðstelling getur sett of mikið álag á raddböndin. Þar með verður átakið ekki jafnt.

Sé magnarakerfi notað stuðlar það að réttri raddbeitingu þar sem sá sem talar heyrir betur í sjálfum sér og spennir því röddina ekki upp

Hita upp röddina. Liðkar raddböndin en sérstaklega vöðvakerfið sem stjórnar barkakýli og hringbrjóski sem raddböndin eru tengd í. Svipað og þegar bílvél er hituð upp. Hún gengur betur heit en staðin.

Gott inniloft. Þar sem við öndum inn í gegnum munn þegar við tölum þá lendir innöndunarloftið á raddböndunum. Hreint inniloft með góðu rakastigi liðkar raddböndin og það verður léttara að tala.

Mengað eða of þurrt innöndurnarloft ertir þekjulögin á raddböndunum og þau eiga erfiðara með að teygjast. Þar með er vegið að röddinni og hún getur orðið hás og rifin. 

Tala og syngja í eðlilegri raddhæð. Ef reynt er t.d. að syngja í annarri raddhæð en einstaklingnum er eiginlegt verður álagið á raddböndin of mikið. 

Vond hljóðvist – eins og t.d. bergmál – veldur því að það verður erfitt að beita röddinni rétt. Þar með er hætt við að raddböndin nái ekki að vinna sitt verk og röddinni verði því misboðið.

Reykingar. Þar sem raddböndin eru í öndunarveginum lendir óhollustan á þeim þegar reykurinn er sogaður niður í lungun. 

Þurrt loft. Raddböndin þurfa að vera rök til þess að geta sveiflast átakalaust. Þurrt loft getur þurrkað öndunarveginn.

Ýmis efni eins og finna má í áfengi og kaffi geta haft slæm áhrif á þekjulag raddbanda og þar með truflað virkni þeirra

Bakflæði. Súr vökvi frá vélinda getur ert viðkvæmt þekjulag raddbandanna og þar með truflað eðlilegar sveiflur sem eru undirstaða raddmyndunar.

Tala í hávaða. Visst lögmál svokallað „Lombard“ lögmál veldur því að við hækkum röddina ósjálfrátt eftir því sem umhverfishávaði eykst

Syngja í rangri tónhæð reynir of mikið á raddböndin. Sama gildir um annað í líkamanum Ef við beitum vöðvum rangt tekur það sinn toll.

Töfratapparnir

Bókin Töfratapparnir er samin með það að markmiði að fræða börn – og fullorðna – um skaðsemi hávaða á rödd og heyrn og vekja til umhugsunar hvað hægt er að gera til að vinna gegn þeim vágesti.

TIl þess að gera hana aðgengilega fyrir sem flesta er reynt að hafa hana einfalda í sniðum. Fyrir þau börn sem eiga við athyglis og einbeitingaskort að stríða er t.d. reynt að hafa myndirnar fyrir ofan textann svo hægt sé að hylja hann eftir þörfum og augun leiti því ekki í myndirnar.

Reynt er að hafa textann stuttan á hverri síðu, kaflar eru stuttir og orðaval innan almenns orðaforða barna. Sérstakt tillit er tekið til þeirra barna sem eru með lesblindu eða eru með athyglis og einbeitingaskorts. Sjá nánar

Bókin kostar 2480 kr og fæst m.a. í öllum Eymundssonverslunum.

Verð 13.500 kr.

Innifalið er: sögubók, leiðbeiningabók og aðgangur að upplestri  og skjávarpamyndum.

Sendingakostnaður bætist við.

Hægt er að panta efnið í gegnum netfangið valdisj@ismennt.is

Radda Padda sem ekki má skadda

Saga um æfintýraför tveggja töfratappa sem fara uppí munna fólks og kíkja á raddböndin. Það geta þeir auðveldlega af því að þeir geta stækkað og minnkað eins og þeir vilja. Munnurinn reynist hin mesta hættuslóð þar sem er að finna tennur, góm, tungu, úf að ekki sé talað um kokið þar sem hægt er að detta niður í lungu eða maga.

Töfratöppunum er sérstaklega hugleikið að vita hvers vegna raddir kvenna, karla og barna hljóma mismunandi. Þess vegna láta þeir sig hanga i úfnum til að geta séð niður á raddböndin. Þannig uppgötva þeir t.d. að hæsi í strák er vegna raddbandahnúts sem trúlega myndaðist af því að strákurinn öskraði svo mikið að raddböndin þoldu það ekki og skemmdust. Við fylgjumst með pælingum tappanna hvernig óþarfa hávaði, sem bæði kemur frá umhverfi en ekki síst frá okkur sjálfum getur verið skaðlegur bæði fyrir rödd og heyrn.

En hvað er til bóta?
Í kennsluleiðbeiningabók sem fylgir sögubókinni koma tillögur um umræðuefni þar sem hægt er að fá bæði börn og fullorðna til að leggjast á eitt með að finna út úr því hvernig hægt er draga úr hávaðanum í kringum okkur og ekki síst venja okkur sjálf af því að gera hávaða.
Þar eru líka leiðbeiningar um hlutverk talfæra ekki síst við myndun talhljóða. Börnin eru þannig leidd í gegnum vangaveltur um hvernig og til hvers við erum að nota varir, tennur, tungu, kjálka.

Staðreyndin er sú að:

  • Hávaði er skaðvaldur sem skaðar sál og líkama.
  • Mældur erilshávaði í námsumhverfi barna hefur farið langt yfir þau mörk sem fullorðnir setja sér til að geta stundað einbeitingarvinnu og átt í samræðum.
  • Ef börn geta ekki hlustað sér til gagns vegna hávaða í skólaumhverfi þá er hvorki hægt að ætlast til hlustunarlöngunar, námsárangurs né að börn nái að þroska með sér mál – ekki síst ef þau eru allan sinn málþroskaaldur á leikskólum. Sjá nánar

Hér má heyra söguna lesna af Dr. Valdísi.

Talandinn, er hann í lagi?

Í þessari bók sem er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi má finna svör við hvað getur farið úrskeiðis í rödd, framburði og framsetningu máls. Bókin varpar á einfaldan, skýran og myndrænan hátt ljósi á þá flóknu líkamsstarfsemi sem myndar rödd og framburð. í henni má finna sjálfskoðunarlista svo fólk geti metið ástand eigin raddar. Æfingar til að ná burtu þreytu og/eða stirðleika í tal- og raddfærum. Röntgenmyndir af stöðu talfæra og einfaldar líffræðimyndir.

Bókin kostar 4680 kr. og fæst hjá Bókaútgáfunni Hólar, í öllum verslunum Eymundsson, Tónspili Norðfirði, Bóksölu Stúdenta, Forlaginu og Sunnlenska Bókakaffinu á Selfossi.

Bítið - Af hverju ætlum við börnum að þola það sem við þolum ekki sjálf ? Valdís Jónsdóttir talmeinafræðngur ræddi við okkur um hávaða

by RÚV | 28. nóvember 2019

Viðtal við Valdísi I. Jónsdóttur í þættinum Sögur af landi

by RÚV | Birt 20. janúar 2019