Ólafur / Hljóðvist

Hljóðvist og hávaði eru atriði sem er gefinn sífellt meiri gaumur í hinu byggða umhverfi. Rannsóknir sýna að áhrif vegna of mikils hávaða geta haft neikvæð áhrif á heilsu manna og er þetta vaxandi heilsufarsvandamál í Evrópu. Heyrnin er kröfuhart skynfæri sem, ólíkt sjóninni, líður engar málamiðlanir. Stór, opin rými gera umhverfið mannvænt og lifandi en um leið þarf að gæta að því að erfið hljóðvist rýri ekki ávinninginn.

Almennt er mikilvægt að ómtími hæfi notkun rýma og að hann sé sem jafnastur yfir tíðnisviðið. M.ö.o. ekki er nóg að meðalómtími rýmis hæfi notkun rýmisins heldur þarf að huga að frávikum sérhverrar tíðni frá meðalómtíma. Á þetta jafnt við um heimili sem og önnur rými. Í stórum rýmum er alltaf hætt við að standandi hljóðbylgjur endurkastist milli samsíða veggja og valdi þannig hljóðflökti (e. flutter echo). Þar sem samskipti eru mikilvæg, getur of hljómmikið rými eða bakgrunnshávaði minnkað skilvirkni samskipta. Einnig getur of dempað rými orðið til þess að talað mál berist ekki til allra hlustenda. Í fyrirlestrarsölum og fundarherbergjum þarf að tryggja góðan skiljanleika talaðs máls og í fyrirlestrarsölum þarf að velja efni í loft, skoða form loftflatar yfir sviði og velja veggjaklæðningar til að tryggja góðan hljómburð.

Góð hljóðvist er einn af þeim þáttum sem hafa hvað mest áhrif á hvíld, afkastagetu og einbeitingu. Áreiti frá öðrum einstaklingum eða tæknibúnaði kann að hafa afgerandi áhrif á einbeitingu og hversu lengi notandinn getur athafnast án þess að finna fyrir þreytu. Þar sem notendur sækjast eftir hvíld og endurnæringu er góð hljóðvist einn af þeim þáttum sem hefur hvað mest áhrif á líðan einstaklinga og getur ráðið úrslitum um gæði hvíldar og svefns. Heima fyrir kann hávaði frá eðlilegri umgengni að virka sem áreiti, og þar með skert ánægju og vellíðan. Til að sporna við bakgrunnshávaða, á heimili sem og á vinnustað, þarf að huga að hljóðstigi og frágangi á öllum tæknibúnaði, s.s. lyftu, loftræsisamstæðum, þakblásurum, tölvuþjónum, uppþvottavél, lögnum, umgengishljóðum annarra notenda, o.fl. Einnig er mikilvægt að hljóðeinangrun skilflata sé í samræmi við notkun og þarfir, og uppfylli settar kröfur hverju sinni.

Share This