Raddæfingar

Góð blanda af æfingum fyrir rödd.

Teygja á brjóstkassa

1)     Standið með fætur aðeins í sundur.
2)     Festið ekki hnén í liðnum. Þau eiga að geta rokkað aðeins til.
3)     Festið ekki mjaðmir. Leitið eftir að ekki hvíli spenna í þeim með því að     hreyfa þær  aðeins til.
4)     Mjaðmagrind  á að vera í réttstöðu, hvorki vísa fram eða aftur.

Lyftið höndum eins hátt til lofts og þið getið og haldið þeim þannig í u.þ.b. hálfa mínútu. Þessi æfing teygir á mitti og réttir brjóstkassa. Þar með gerir hún öndun auðveldari

Öndun

Handleggirnir lagðir að bringubeini eins og gert er í bringusundi. Andið inn um leið og þið hreyfið handleggina framá við og út  til hliða. Við þá hreyfingu finnst hvernig rifbeinin lyftast upp og út.  Andið út um leið og þið leggið handleggina í upphaflega stöðu.
Ath. Gætið þess að lyfta hvorki upp öxlum né olnbogum. Gerið þetta þrisvar sinnum.

Notið ekki rödd:

Ta    Ta    Ta                        Ti    Ti    Ti

Ki    Ki      Ki                        Ku    Ku    Ku

Pa    Pa    Pa                        Pu    Pu    Pu

Si    Si    Si                        Su    Su    Su

Há    Há    Há                        Hí    Hí    Hí

Hálsæfing

Látið höfuð detta niður að bringu. Finnið fyrir spennu í aftanverðum hálsi. Ekki að þvinga höfuðið of langt niður. Við það myndast óheppileg spenna í hálsi. Lyftið upp höfði hægt og rólega þangað til það situr á jafnvægispunkti. Munið að höfuðið á ALLTAF að sitja rétt á jafnvægispunkti.

Axlaæfing

Yppið  öxlum  fimm sinnum og látið þær detta vel niður í hvert skipti. Snúið þeim í hringi. Byrjið upp við eyru og hreyfið þær  afturá bak  síðan  niður,  upp og loks í upphaflega stöðu. Snúið síðan hringnum við.

Andlitsæfing

Losið um andlitsvöðva með því að gretta ykkur af líf og sál
Losið ennisvöðva með að hrukka ennið og slaka síðan á þeim.

Æfing fyrir varavöðva

Puðrið. Varirnar eiga að geta puðrað strax. Ef slíkt skeður ekki er vöðvinn orðinn of stífur. Puðrið nokkrum sinnum.

Æfing fyrir kinnvöðva

Blásið út í kinnarnar og veltið síðan nokkrum sinnum loftinu á milli kinna. Ef kinnvöðvinn er stífur tekst ekki að blása út í hann

Æfing til að losa um kjálka

Opnið munninn eins mikið og þið getið og teygið á kjálkavöðvanum. Gerið þetta þrisvar til fjórum sinnum. Slappið af í kjálkavöðvunum og skakið kjálkanum nokkrum sinnum út til hliða. Gerið þetta varlega ef ske kynni að það brakaði í kjálkaliðum. Prófið síðan að tala eina setningu með kjálkann alveg afslappaðan. Þannig eigið þið reyndar alltaf að tala

Tunguæfing.

A) Leggjið tungubroddinn aftan við tennurnar  í neðri góm og gerið tunguna breiða inn í munninum.
B) veltið tungubakinu út úr munninum eins langt og þið getið og  haldið  tungubroddi við tennur í neðri góm. Endurtakið þetta nokkrum sinnum. ATH. Tungubak á að vera eins kúpt og hátt og kostur er. Lítið gagn er að þessari æfingu ef tungan er flöt. Þessi æfing er nauðsynlegust af öllum æfingum þar sem tungan getur verið með festarmein við tungubein sem getur hindrað eðlilegar hreyfingar barka og þar með raddbanda.

Æfing til að losa um barka.

Dragið barkann upp með að segja /id/,  skjótið honum svo niður með því að segja /dn/ og fylgið hljóðinu eftir eins djúpt niður í brjóstkassa og þið getið. Gerið þetta nokkrum sinnum

Æfingar til að losa um kok

“Brosið “ með kokinu. Þ.e lokið munni og reynið síðan að brosa með kokinu. Þetta er hægt!

Slökun

Látið tunguna liggja slappa út úr munninum smástund. Sitjið.

Sitjið á stól  eins þægilega og þið getið með augun lokuð. Hugsið um eitthvað sem róar t.d. að vera staddur í bát sem ruggar þægilega í góðu veðri. Yfirfarið rólega líkamann  í huganum og reynið að finna sérhverja spennu til að losa hana –  vöðva fyrir vöðva. Reynið að finna fyrir þyngslahreyfingu í líkamanum. Andið rólega að  og frá  ykkur  án nokkurrar áreynslu.

Framkallið góðan geyspa. Það er einhver besta slökunaræfing sem til er.

Geyspið alltaf þegar þið hafið þörf fyrir það. Það er vandamál þess sem er að tala hvort hann/hún tekur það til sín.

Share This