Með lífið í lúkunum

Með lífið í lúkunum

Með lífið í lúkunum

Í þættinum ræðir Erla við Valdísi Ingibjörgu Jónsdóttur, 80 ára magnaða konu sem er doktor í talmeinafræðum um vini og óvini raddarinnar, raddvenjur, umhverfisáhrif, þekkingarleysi, talkerfið, hávaða í námsumhverfi barna, áhrif raddheilsu á lífsgæði og fleira.
Valdís Ingibjörg hefur unnið sem talmeinafræðingur í 50 ár. Hún er með mastersgráðu (M.Phil frá Strathclyde University; Glasgow 1996) og doktorsgráðu (PhD frá Tampere í Finnlandi, 2003) í rödd og raddumhirðu (voice ergonomics).

Valdís hefur í áraraðir frætt landann um raddheilsu og er eini raddheilsufræðingur landsins. Hún brennur fyrir það að reyna að koma í veg fyrir raddskaða og raddveilur.

Valdís bendir á að röddin sé atvinnutæki margar, t.d. kennara, söngvara, leikara og fleiri en það er alveg óvarið og ótryggt. Kennarar eru mest útsettir fyrir raddveilum þar sem þeir starfa oft við ólíðandi aðstæður. Raddveilur eru t.d. langvarandi hæsi, ræma, raddbrestir, raddþreyta, lítið raddþol, raddstyrkur dvínar og ræskingarþörf. En það er alveg bannað að ræskja sig segir hún! Það gerir illt verra.

Valdís vill fá raddheilsu flokkaða undir Lýðheilsu því að þetta er mun stærra vandamál en fólk heldur. Það þarf að hita upp röddina, alveg eins og þú hitar upp aðra vöðva og líkamshluta fyrir átök. Hún segir líka að það sé ekki nóg að hafa vitneskjuna ef þú hefur ekki skynsemina til þess að nota hana og að við þurfum að hugsa vel með röddina okkar.

Á heimasíðu hennar Rödd.is má finna ráð sem gætu gagnast fólki sem finnnur fyrir þreytu eða hefur áhyggjur af raddheilsu sinni.  Hún hefur einnig gefið út bók sem heitir Talandinn og gæti gagnast mörgum.

Á heimasíðu hennar Rödd.is má finna ráð sem gætu gagnast fólki sem finnnur fyrir þreytu eða hefur áhyggjur af raddheilsu sinni.  Hún hefur einnig gefið út bók sem heitir Talandinn og gæti gagnast mörgum.

Fylgið Heilsu Erlu á Instagram
Hvað þurfa margir að missa rödd?

Hvað þurfa margir að missa rödd?

„Fær martraðir um að missa röddina“ var fyrirsögn að viðtali við söngkonuna Klöru Elíasdóttir. Það er í raun sorglegt at lesa þetta vegna þess að þetta ber vitni um almennt þekkingarleysi á rödd. Sé ekki um sjúkdóma að ræða, á röddin ekki að gefa sig ef þekking er fyrir hendi.. Hins vegar vegna þess hve fólk veit almennt lítið um rödd veit það ekki hvað getur skemmt hana.

Rödd er ekkert annað en hljóð sem við skynjum. Sem hljóð bilar rödd ekki en „biluð“ rödd segir til um að eitthvað sé að því líkamskerfi sem myndar hana. Þarna liggur hundurinn grafinn. Fólk áttar sig ekki á því að um líkamsstarfsemi er að ræða og kann því ekki að varast þær hættur sem geta sett þessa starfsemi úr skorðum. Skammvinn læknisinngrip sem ná röddinni upp duga skammt og eru ekki sambærileg við árangurinn af því að hafa þekkingu til þess að halda góðri raddheilsu.

Það er sorglegt að þekkingarleysi ráðamanna sem eiga allt undir sinni eigin rödd skuli í raun hindra að fræðsla um rödd og raddheilsu skuli ekki vera meðal námsefna um líffræði í skóla. Annað. Raddheilsa á að heyra undir lýðheilsu Það var fáránlegt á sínum tíma að ráðherra skyldi leggja blessun sína yfir verkefni sem hvatti fólk til að koma til Íslands beinlínis til að öskra úr sér stressið – verkefni sem varð reyndar verðlaunað. Þetta er í fyrsta skipti sem ég verð vitni að því að eitthvert framtak sem beinlínis getur valdið heilsutjóni sé verðlaunað. Öskur sem önnur misbeiting raddar geta nefnilega valdið skaða á raddfærum eins og t.d raddböndum.

Er ekki talað um að öskra úr sér röddina? Hættum þessum blindingjaleik og bætum úr þekkingarleysi almennings á rödd. Ég skora á ráðamenn að bæta hér úr. Til þess að halda röddinni þarf -langoftast – fyrst og fremst þekkingu en ekki læknisfræðileg inngrip.

Höfundur er radd-og talmeinafræðingur.

Tví­tyngi? Væri ekki nær að tala um fjöltyngi eða þvoglutyngi?

Tví­tyngi? Væri ekki nær að tala um fjöltyngi eða þvoglutyngi?

Valdís Ingibjörg Jónsdóttir skrifar 
Í nútímasamfélagi gusast yfir okkur ný orð sem við eigum oft fullt í fangi með að meðtaka. Eintyngi, tvítyngi, fjöltyngi eru dæmi um slíkt. Hvað þýðir t.d. að vera tvítyngdur? Það þýðir að eiga foreldra/uppalendur sem eru með sitthvort móðurmálið t.d. dönsku og íslensku. En hvað þýðir þá að vera fjöltyngdur? Það hlýtur þá að þýða að einstaklingurinn elst upp við fleiri en tvö tungumál.

Það eru ekki ýkja mörg ár síðan hér voru nær eingöngu eintyngd börn m.ö.o. börn sem ólust eingöngu upp við íslensku. Núna hefur heimurinn hins vegar breyst og hingað hefur flutst fólk frá ólíkum menningarheimum talandi mismunandi tungumál. Að sjálfsögðu sækja börn þessara erlendu innflytjenda íslenska skóla og eru þá með sitt eigið tungumál í farteskinu. En ég ætla ekki að tala um þau börn heldur þessi svokölluðu tvítyngdu börn sem eiga foreldra af sitthvoru þjóðerninu. Þau eru nefninlega ekki tvítyngd heldur fjöltyngd.

Rök?

Já skoðum dæmi, sem ég sem talkennari þekki. Ég var með bræður sem áttu austurlenska móður og íslenskan föður. Faðirinn hafði búið í landi móðurinnar og lært hennar mál brogað m.ö.o. hann talaði hreina íslensku en brogað austurlenskt mál. Móðirin talaði hins vegar sitt móðurmál vel en þegar hún flutti til Íslands lærði hún brogaða íslensku. Þarna eru komin önnur tvö mál til viðbótar þ.e.a.s. hreint austurlenskt mál og broguð íslenska. Sem sagt fjögur mál. Hvað gerðu svo drengirnir þeirra? Þeir töluðu ensku sín á milli. Sú enska var ekki kórrétt enska heldur enska sem þeir höfðu lært af samskiptamiðlum. Í samantekt er þetta 5 „mál“ sem drengirnir ólust upp við þ.e.a.s. tvö rétt töluð mál og svo þrjú broguð. Það segir sig sjálft að þeir náðu ekki tökum á neinu máli til fullnustu.

Hver varð afleiðingin?

Drengirnir – þrátt fyrir góða greind – náðu ekki þeim tökum á íslensku sem þurfti til að grunnskólaskólagangan nýttist þeim sem skyldi. Það sem bjargaði þeim var að þeir fengu stífa talkennslu í fleiri ár og eigin dugnaður og greind skilaði þeim reyndar upp í framhaldsskóla.

Skólakerfið okkar eins og það er hannað er hreinlega ekki í stakk búið til að geta sinnt börnum sem hafa alist upp í broguðu málumhverfi. Afleiðingarnar verða að þessi börn ná hreinlega ekki þeim tökum á íslensku máli sem dugar þeim til skilnings eða tjáningar hvað þá heldur ná þau þeim tökum á þeirri íslensku sem þau þurfa til þess að geta stundað nám – ekki síst í aðstæðum þar sem hávaði ríkir en það er margoft búið að benda á að hávaði í kennslurými er alltof hár til að einbeiting og hlustun geti átt sér þar stað -hvað þá ef góð málakunnátta og málgeta er ekki fyrir hendi.

Höfundur er radd-og talmeinafræðingur.