Lífsreynsla konu sem missti röddina

Lífsreynsla konu sem missti röddina

Mig langar til að deila með ykkur lífsreynslu konu – fyrrverandi leikskólakennara – sem endaði sem raddsjúklingur m.a. vegna eðli starfsins. Ég bað hana að skrifa um reynslu sína af því að vera raddsjúklingur sem hún og gerði. Þetta bréf vil ég birta því efni þess ýtir við öllum og sýnir þá dauðans alvöru að koma viðurkenningu á að rödd fyrir utan það að vera ótryggt atvinnutæki – er jafnframt ein af undirstöðum lífsgæða.

Þegar ég missti röddina

þá tala ég sem minnst eða ekkert við börnin mín barnabörn eða ættingja og vini í síma eða í persónu. Get þar af leiðandi ekki farið í vinnuna mína og alls ekki sungið í kórnum mínum. Ég forðast öll samskipti við fólk fer þessvegna ekki á mannamót því það er öruggt að ég hitti einhvern sem mig langar að tala við eða aðila sem langar að tala við mig. Ég læt vita að ég sé að glíma við raddleysi. Því er alltaf vel tekið en einmanaleiki og að finnast ég vera utanveltu veldur mér depurð að geta ekki notið þess að vera innan um vini. Verst er þegar ég verð svo raddlaus að ég kem engum hljóðum frá mér, hræðslan og innilokunarkenndin er yfirþyrmandi, ég gæti ekki kallað á hjálp þótt ég þyrfti. Verð að leita til læknis og talmeinafræðings, hanga heima í allt að 2 til 3 vikur. Einmanaleikinn og vonleysið hellist yfir mig ég sit heima og reyni að finna eitthvað í sjónvarpinu eða mögulega prjóna smá. Stundum fara af stað slæmar hugsanir um eigin heilsu og um það hvað sé í gangi með þetta raddleysi hvað er að ???
Miklu skiptir að fá góðan skilning frá yfirmönnum, en það eru ekki allir þannig.